Pages
Thursday, July 7, 2011
Fimmtudagur 7. júlí í Dover
Í dag var fyrsti dagur af sundrétti Árna Þórs. Of vindasamt var á Sundinu til að þreyja Ermarsund þ.a. dagurinn byrjaði á rúmlega klukkutíma æfingu í höfninni. Þar hittum við fyrir Bandaríkjamenn sem búa í Ástralíu, eru þeir í sömu erindagjörðum og Árni Þór að synda einstaklingssund yfir Ermarsund. Eftir æfinguna okkar var skollið á gott veður með sól og blíðviðri. Þá fjölgaði á ströndinni í höfninni og hittum við hressan hóp kvenna sem ætla sér að synda boðsund á sunnudag eða mánudag. Haldið var til næsta bæjar við Dover sem heitir Folkstone og þar var farin skoðunarferð um miðbæinn og labbað upp hvítu klettana milli bæjanna. Þaðan er frábært útsýni yfir Sundið og á góðviðrisdögum sést yfir til Frakklands. Notuðum við tækifærið og plönkuðum á völdum stöðum sem sjá má hér á síðunni og á Facebook. Komum til baka til Dover um 6 leytið og var tekin klukkutíma seinniparts æfing. Sjórinn var rúmlega 15 gráður og er smám saman að hitna. Sjórinn er þó ca. 2 gráðum kaldari en á sama tíma í fyrra. Boðsundsveitin fór til Frakklands í skoðunar- og sundferð. Var það mál manna að þorpið í Calais sé mun nýtískulegra og flottara en Dover. Þar var tekinn góður sundsprettur og lunch. Boðsundsveitin er á heimleið á morgun. Árni Þór var í sambandi við skipstjórann okkar Stuart núna seinnipartinn. Veður- og vindaspá lítur enn þannig út að Árni geti lagt í hann snemma á sunnudagsmorgni. Góð spá er fyrir sunnudag og mánudag og þá myndast frábær gluggi til að synda yfir! Það er ansi margir sundmenn sem bíða eftir þessum glugga og líklegt er að það verði mannmergð á Sundinu á sunnudagsmorgun. Tímann fram að því notum við vel til æfinga og til að undirbúa sundið og yfirfara allan búnað sem við höfum um borð. Bestu kveðjur frá Dover.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment
Note: Only a member of this blog may post a comment.