Pages

Sunday, July 10, 2011

Komnir tilbaka til Dover.

Árni þurfti að hætta sundi eftir 36,5 km og tæplega 10 stunda sund

Núna klukkan 15.15 að staðartíma þurfti Árni Þór því miður að hætta sundi yfir Ermarsundið. Axlarmeiðsl og miklir straumar þvinga hann til að taka þessa ákvörðun í samráði við skipstjórann og atstoðarmenn sína um borð. Árni hafði þá synt í nákvæmlega 9 klukkutíma og 33 mínútur og lagt að baki 36,5 kílómetra. Árni var að öðru leyti í mjög góðu ásigkomulagi þegar hann kom um borð og vildi hann skila þakklæti til allra sem hafa fylgst með og veitt sér stuðning í þessu krefjandi verkefni.

Hægt að fylgjast með ferðum annarra sundmanna á Ermarsundi



Til gaman má benda á síðuna hér þar sem hægt er að fylgjast með ferðum annarra sundmanna hér á Ermarsundi. Árni á sem áður segir "Track 5", svo var annar solo sundmaður sem startaði á sama tíma og Árni Þór. Hinir bátarnir eru að fylgja boðsundsveitum.

Árni orðinn mjög tæpur, axlarmeiðsl farin að gera vart við sig

Hægri öxl Árna er orðin mjög tæp og hefur hann ekki getað beitt hendinni sem skyldi. Það hefur gert það að verkum að við höfum aðeins farið hálfa mílu á síðasta einum og hálfa klukkutímanum. Mjög sterkir straumar hafa ýtt Árna af sundleiðinni. Ingþór og Benni töluðu við Árna í síðustu matargjöf og urðu þeir sammála um að Árni myndi synda í hálftíma í viðbót og sjá hvort hann nái að kreysta meira úr hægri höndinni. Staðan verður svo endurmetin sum sé eftir 30 mínútur. Það er engu að síður gríðarlegur baráttuandi í Árna.

Benni er kominn út í sjó og ætlar að synda með Árna næsta klukkutímann

Árni heldur áfram

Nú er sólin farin að skína hér Frakklands megin og Árni fær orku frá henni og hefur heldur hert sundið. Nú þarf hann virkilega að taka á því og það er alls enginn uppgjafartónn í honum. Jón synti með honum í tæpan klukkutíma. Benni mun líklega fara útí kl 12.00 að íslenskum tíma og synda með Árna. Vindur er 5 m/s, lofthiti er 14,6 og sjávarhiti 14,3



Árni er núna búinn að vera 7 tíma og 30 mínútur á sundi og hefur lagt 30 km að baki. Þess má geta að heimsmetið er rétt rúmlega 7 tímar og lengsti skráði tími einstaklings yfir Ermarsundið er 28 klukkustundir. Aðeins hefur einum solosundmanni tekist að ljúka Ermarsundi í ár, það var Marcella Mcdonald frá Bandaríkjunum sem gerði það 26. júní á 10 klst og 34 mínútum.

Sendum Jón út í til að hvetja Árna til dáða.

Sendum Jón út í til að hvetja Árna til dáða. Árni hefur hægt verulega á sér og þarf að herða sig. Miklir og sterkir straumar hafa borið okkur af leið. Bíðum eftir að straumar verði okkur hagstæðari. Aukasundmaðurinn má vera klukkutíma mest í sjónum. Svo verður að líða að lágmarki klukkustund á milli næsta sundmanns sem syndir með. Nú eru komnir 26 km.

Nálgumst franska lögsögu en Árni þarf að herða sundið.

Nú er Árni búinn að synda í rétt rúmlega 5 klukkustundir og hefur lagt 23 kílómetra að baki. Það er gríðarleg umferð skipa á Sundinu enda um fjölförnustu siglingaleið í heimi að ræða. Franska landhelgisgæslan var að senda út tilkynningu til skipa að vara sig á sundfólki.

Rúmlega 15 km búnir af sundinu

Nú er Árni búinn að synda 15 kílómetra og miðar honum vel áfram þrátt fyrir smá verk í öxlum. Síðasta matargjöf gékk vel og fékk hann orkudrykk í þetta skiptið. Ingþór sér um gjafirnar sem nú gerast með 30 mínútna millibili og það er fyrirfram ákveðið hvað gefið er í hvert skipti. Benni fylgist með sundstíl og sundstefnu Árna og gefur honum viðeigandi skipanir reglulega.
Hægt er að fylgjast með ferðum Árna á sérstakri vefsíðu hér.

3 matargjafir búnar



Árni var að fá þriðja matarskammtinn núna og gékk betur með gjöfina en í fyrri tveimur. Nú förum við að gefa honum á hálftíma fresti. Árni er aðeins farinn að finna fyrir verk í öxlum og er það pínu áhyggjuefni. Mögulega nær hann að losna við verkinn með verkjatöflunni sem við vorum að gefa honum.

Rúmlega 9 km að baki. Sundið gengur vel. Styttist í næstu matagjöf en sú fyrsta mislukkaðist. Mikilvægt að þær taki sem stystan tíma.

Matargjöf, ein klukkustund liðin af sundinu. 5.2 kílómetrar að baki.

Árni búinn med 2.2 kílómetra á 30 mínútum, útfallid hjálpar.

Hitastig sjávar er 15,8 og lofthiti er 17 grádur.

Árni ad fara út í sjóinn, Ingthór ad gefa okkar manni pepp!

Sundid hafid, Árni lagdi í hann kl 05.42 ad stadartíma.

Erum ad leggja í hann, verid smyrja Árna.

Saturday, July 9, 2011

Nýjustu upplýsingar: lagt af stað kl. 05.00 í fyrramálið



Stuart skipstjóri hringdi í Árna núna rétt í þessu til að staðfesta að við eigum að mæta niður á bryggju kl. 04.30 og ef allt gengur að óskum verður lagt í hann kl 05.00 að staðartíma sem er 04.00 að íslenskum tíma. Það er óðum að lygna en spurningin er hvort aldan verði að fullu gengin niður í fyrramálið. Núna krossleggjum við fingur og vonum að hægt verði að leggja í hann og Árni er algjörlega klár í baráttuna og búinn að load-a sig vel upp af kolvetnum! Við munum gefa ykkur upplýsingar í fyrramálið um leið og þetta skýrist. Bestu kveðjur frá Dover, Árni & Co.

Erum enn að bíða eftir staðfestingu á sundinu frá skipstjóranum okkar

Við bíðum enn frétta frá Stuart skipstjóranum okkar en hann og aðrir skipstjórar eru að meta stöðuna með veður og sjávarföll í nótt og á morgun. Við eigum von á að heyra frá honum innan næstu tveggja tíma og verðum vonandi með staðfestan tíma fljótlega.

Fundur med Stuart, nú lítur út fyrir ad vid förum af stad í fyrramálid. Fáum lokasvar kl 4 í dag.

Friday, July 8, 2011

Föstudagur 8. júlí í Dover

Árni er að undirbúa sig líkamlega og andlega fyrir sundið sem nú er planað að hefjist snemma mánudags. Árni tók góða 1,5 klst æfingu í morgun og fóru Benni, Jón og Haukur með í sjóinn og syntu þeir með í miklum öldugangi og látum sem Benni segir að sé besta æfingin fyrir stóru átökin úti á Ermarsundi. Árni mun nú minnka æfingarnar og nú er mikilvægt að hvíla vel fyrir sundið. Þar sem að það er útséð með að sundið hefjist í fyrsta lagi á mánudagsmorgun ákváðum við að aðstoðarmenn Árna gerðu sér ferð til Calais í Frakklandi á morgun. Benna langar að sjá staðinn þar sem hann kom í land sumarið 2008 þegar hann kláraði Ermarsundið. Hann kom þangað í myrkri og hefur ekki hugmynd um hvernig staðurinn lítur út en okkur skilst að þar sé fallegt. Við ætlum okkur einnig að taka sundsprett á ströndum Frakklands :)
Árni verður eftir í Dover og fer aðeins í sjóinn en hvílist að öðru leiti. Nú er hann byrjaður að "load-a" sig af efnum í vökvaformi sem munu gefa honum auka búst þegar kemur að sundinu.
Við enduðum daginn á góðum skipulagsfundi þar sem farið var yfir langan tékklista, meðal annars hvaða búnað við þurfum að hafa með út á sjó, vistir og annan búnað sem þarf að vera meðferðis. Við fórum yfir sundáætlun og hlutverkaskiptingu um borð.
Í fyrramálið munum við svo halda fund með skipstjóranum okkar Stuart og fara yfir planið. Hann verður búinn að skoða nýjustu veður- og vindaspá og einnig þarf að skoða hvernig stendur á með flóð og ákveða starttímann með hliðsjón af því. Í dag kvöddum við svo félaga okkar í boðsundsveitinni, þau áttu flug heim til Íslands í kvöld með Iceland Express. Bretarnir voru mikið að spyrja okkur hvort annað eldgos væri í vændum því BBC hafði víst flutt fréttir af því að eldfjallið Hekla væri um það bil að fara að gjósa :) Við vorum pollról og sögðum þeim að þetta væri nú ekkert til að hafa áhyggjur af! Nú ef svo illa vill til að Hekla gjósi og við komumst ekki heim þá heitir Árni því að synda fram og tilbaka yfir Ermarsundið ;)
Bestu kveðjur frá öllum heim til Íslands.
p.s. Benni á afmæli á morgun og við ætlum að koma honum á óvart...ekki segja honum frá!

Skipulagsfundur hjá teyminu, tékklisti yfirfarinn. Allir klárir á sínu hlutverki.

Veður í Dover og á Ermarsundi

Á Ermarsundi eru núna um 10-15 m/s sem er ófært til sunds. Lofthiti er ágætur eða um 16° og hiti sjávar er 14° og hækkar með deginum. Árni er að fara á sundæfingu og ætla nokkrir að synda með honum í höfninni.



Til fróðleiks og upplýsinga þá er hægt að nálgast góðar upplýsingar um veður og vinda á síðunni WindGuru.

Fróðleikur um Ermarsund

Fyrir fróðleiksfúsa má benda á sérlega skemmtilega og upplýsandi heimasíðu The Channel Swimmers Association.

Þar má finna ýmsan fróðleik svo sem hverjir hafa klárað Ermarsund í ár og fyrri ár.

Upplýsingar um skipstjórann okkar Stuart er að finna hér. Þegar sundið hans Árna hefst má fylgjast með ferðum okkar og skipsins Sea Leopard hér.

Margar skondnar en strangar reglur gilda í Ermarsundinu svo það að frá þeim tíma sem sundmaður fer af stað frá Dover og þar til hann nemur land á ströndum Frakklands má hann ekki snerta neitt nema sjóinn og matinn sinn!! Öll snerting við bát og fólk þýðir að sundmaður er út leik. Sjá meira um þetta hér á reglusíðu CSA.

Thursday, July 7, 2011

Nýjar myndir frá Dover

Minnum á að það er hægt að sjá fleiri myndir á Facebook síðunni okkar Ermarsund 2011.

Fimmtudagur 7. júlí í Dover

Í dag var fyrsti dagur af sundrétti Árna Þórs. Of vindasamt var á Sundinu til að þreyja Ermarsund þ.a. dagurinn byrjaði á rúmlega klukkutíma æfingu í höfninni. Þar hittum við fyrir Bandaríkjamenn sem búa í Ástralíu, eru þeir í sömu erindagjörðum og Árni Þór að synda einstaklingssund yfir Ermarsund. Eftir æfinguna okkar var skollið á gott veður með sól og blíðviðri. Þá fjölgaði á ströndinni í höfninni og hittum við hressan hóp kvenna sem ætla sér að synda boðsund á sunnudag eða mánudag. Haldið var til næsta bæjar við Dover sem heitir Folkstone og þar var farin skoðunarferð um miðbæinn og labbað upp hvítu klettana milli bæjanna. Þaðan er frábært útsýni yfir Sundið og á góðviðrisdögum sést yfir til Frakklands. Notuðum við tækifærið og plönkuðum á völdum stöðum sem sjá má hér á síðunni og á Facebook. Komum til baka til Dover um 6 leytið og var tekin klukkutíma seinniparts æfing. Sjórinn var rúmlega 15 gráður og er smám saman að hitna. Sjórinn er þó ca. 2 gráðum kaldari en á sama tíma í fyrra. Boðsundsveitin fór til Frakklands í skoðunar- og sundferð. Var það mál manna að þorpið í Calais sé mun nýtískulegra og flottara en Dover. Þar var tekinn góður sundsprettur og lunch. Boðsundsveitin er á heimleið á morgun. Árni Þór var í sambandi við skipstjórann okkar Stuart núna seinnipartinn. Veður- og vindaspá lítur enn þannig út að Árni geti lagt í hann snemma á sunnudagsmorgni. Góð spá er fyrir sunnudag og mánudag og þá myndast frábær gluggi til að synda yfir! Það er ansi margir sundmenn sem bíða eftir þessum glugga og líklegt er að það verði mannmergð á Sundinu á sunnudagsmorgun. Tímann fram að því notum við vel til æfinga og til að undirbúa sundið og yfirfara allan búnað sem við höfum um borð. Bestu kveðjur frá Dover.

Wednesday, July 6, 2011

Miðvikudagur 6. júlí í Dover







Góður dagur að baki. Alls komu 7 Íslendingar til Dover í dag og bættust við hópinn. Veður var með ágætum, um 20 stiga hiti en töluverður vindur í sundinu. Árni Þór tók góða æfingu í morgun í höfninni og þar var tölvuverð alda sem gott er að æfa sig á því þær verða fleiri og meiri úti á Sundinu! Eftir sundsprett seinnipartinn fór hópurinn á enska knæpu til að borða og skipuleggja morgundaginn. Hluti hópsins ætlar til Frakklands á morgun og mun skoða Calais og næsta nágrenni. Ágætis spá er fyrir næstu daga, sólríkt og um 20 stiga hiti en vindur verður áfram nokkuð sterkur, amk fram á laugardag. Hiti sjávar er um 14 gráður. Sundréttur Árna hefst formlega núna á miðnætti en nokkuð útséð er með að ekki gefist færi til að hefja sund fyrr en eftir amk 2 sólarhringa, en allt getur svo sem gerst og við munum reglulega gefa frá okkur stuttar fréttir og tilkynningar hér á síðunni svo fylgist vel með framvindunni hér á vefsíðunni okkar.

Ermarsund 2011

Kiddi ávallt hress.

Tuesday, July 5, 2011

Fréttir af boðsundsveitinni

Boðsundsveitin lagði upp í höfninni í Dover uppúr 23.10 að íslenskum tíma í gærkvöldi. Sundið byrjaði afar vel og syntu fyrstu 3 sundmennirnir hratt og örugglega í átt að ströndum Frakklands. Hins vegar varð fjórði sundmaðurinn veikur stuttu eftir að hann lagðist til sunds og það gerði honum ókleyft að halda sundinu áfram. Þar með lauk Ermarsundi boðsundsveitarinnar í ár. Það var vitað fyrirfram að ekkert er gefið þegar kemur að Ermarsundi og ekki að ósekju að innan við tuttugu prósent klára sundið. Við horfum hins vegar bjartsýn og full eldmóði á framhaldið og gefum Árna Þór góða strauma fyrir hans sund. Árni Þór á fyrsta sundrétt frá 7. til 14. júlí. Eins og veður- og vindaspár líta út í dag er gert ráð fyrir að Árni leggi í hann annaðhvort á sunnudag eða mánudag.

Saturday, July 2, 2011

Ermarsund 2011

Benni Hjartarson rædir um ofkælda sundmanninn.

Ermarsund 2011

Benni vildi endilega gera rádstafanir fyrir sundid :-)

Ermarsund 2011

Jæja gott fólk, thegar ég ætladi ad hefja fyrst sundæfinguna var ég handtekinn fyrir ad ætla ad synda a g-streng, Benni er þegar kominn inn i lögreglubílinn og er ekki með svona sólheimaglott eins og hann er vanur.

Monday, June 27, 2011

Að loknu vel heppnuðu Securitas sólarhringssjósundi.


Óhætt er að segja að sundið hafi heppnast vel í alla staði.  Næst á dagskrá er Ermarsund 2011

Við náðum að slá margar flugur í einu höggi:

1. fluga ->   Framkvæma fyrsta sólarhringssjóund (Boðsund) við strendur Íslands
2. fluga ->   Undirbúa og æfa boðsundsveit og Árna fyrir þrekraunir Ermarsundsins
3. fluga ->   Síðan ekki síst, fjölmiðlaathygli sem kynnti Ermarsundið hans Árna Þórs og boðsundsveitarinnar


Nokkrar staðreyndir um sundið:
  • 6 manna boðsundsveitin synti um 70 km.  Hver synti í 30 mín hólfum í átta umferðum.  Hver sundgarpur synti því  í 4 klst og að meðatali um 12 km.
  • Sjóhiti var frá 9° - 12 °
  • Sundið var synt í óhitaeinangri sundfötum (hefðbundnum sundskýlum) og allir voru ósmurðir (Án feiti) allan tímann.  Yfir há nóttina brá Heimir sér í óhitaeinangri swimskin keppnisgalla.  
  • Margir komu og syntu með görpunum. Fyrst ber að nefna Árna sem synti sirka 3 klst 30 mín allt er tekið saman.  Hann synti mest með Ásgeiri og síðan var hann að æfa matargjafir.  Þórdís Hrönn Pálsdóttir, Drangeyjarkappi lét sjá sig þrisvar og synti í um 1 klst.  Hafnfirðingurinn og sundgarpurinn Guðni Guðnasson synti með okkur tvisvar í röð í fyrstu umferðinni.  Benni Hjartar, Ermarsundgarpur var hópnum og Árna til halds traust og miðlaði reynslu sinni og síðan ekki síst orkubitunum "gullabiti" sem hann bakar svo snilldarlega
  • Fyllsta öryggis var gætt. Björgunarsveitarmenn úr Kópavog fylgdu okkur frá kl 19:00 - 10:00.  Eftir það syntum við meðfram ströndinni og létum alltaf einhvern fylgjast með.
Hérna er smá yfirlit yfir fjömiðlaumfjöllunina:

MBL.is 24. júlí

Bylgjan hádegisfréttir 26. júlí

Stöð fréttir 25. júlí

Útvarpsfréttir RUV 24. júlí

RUV sjónvarpsfrétt 24. júlí

Svo að lokum, nokkur vídeó

Svona á að hita upp fyrir sjósund um miðja nótt !

Svona fóru skiptingar fram

Árni synti með Ásgeir nokkur skipti. Skipting við Bjössa í umferð nr 2

Árni æfir matargjafir

Kvöldgalsi í mönnum


Saturday, June 25, 2011

Fyrsta sólarhrings Sjóboðsund við strendur Íslands staðreynd


Nú rétt rúmlega  kl 19:10 kláraði Ásgeir Járnkall sína 8. umferð og þar með var fyrsta sólarhringssjóund við strendur Íslands staðreynd.  Árni Þór synnti með honum og þeim var vel fagnað.

Hópurinn synti um 70 km (69,5km) í 9° til 12° heitum sjó. Veður var gott allann tímann.

Von er á fleiri upplýsingum á morgum.

Nú styttist í annan endann



Hér er fullt af fólki í Nauthólsvíkinni vegna leikjadag í tilefni 25 ára afmæli ÍTR.  Boðsundið hefur fengið mikla athygli og nánast allir fjölmiðlar voru á staðnum núna áðan.


8. og síðasta umferðin byrja um 16:10.  Röðin er eins og hún verið allt sundið:
1610 Heimir Örn
1640 Hálfdán
1710 Kristinn
1740 Birna
1810 Björn
1840 til 1910 Ásgeir

Búinn að synda um 70 km og allir orðnir þreyttir og "létt" steiktir af svefnleysi og þrekraunum í sjónum.

Við munum ljúka þessu fyrsta Sólarhrings sjósundi Íslandssögunar með stæl.  Spurning hvort viðtökum plankann með honum Ásgeiri í lokasundinum ??

Við klárum þetta !

 Nú reynir virkilega á mannskapinn.  Það hefur verið mjög takmörkuð hvíld og þreyta er farinn að segja til sýn í 11° heitum sjó. Garparnir eru misfóðraðir en Heimir hefur verið að lenda í vandræðum með kulda.  Ásgeir er slæmur í öxlinni og getur ekki synt skriðsund en við erum staðráðin í að klára þetta.  Hver tekur sýna 30 mín vakt. Erum í 6. umferð og eigum einungis tvær eftir.  kl 12:00 vorum við búinn að synda 17 klst og synda 52 km


Árni mættur til að æfa matargjafir

Dagurinn tekur vel á móti 6 manna boðsundsveitinni úr hafnarfirðinum



Erum að ljúka 5 umferðinni.  Sjá listann góða

Þriðja umferð að klárast


Dáni fer útí kl 01:40

Nú stendur yfir þriðja umferð.  Heimir byrjaði hana kl 01:10. Hver sundmaður syndir í 30 mín  sem þýðir að hann þarf að fara 8 sinnum ofaní. Hér má sjá röðina. Nú fer að reyna mannskapinn þar sem úti og sjóhiti lækkar yfir nóttina og líkamshiti garpana fellur niður.  Menn úr björgunarsveit Kópavogs standa vaktina á fylgdarbát sínum með myndarbrag og sjá til þess að fyllsta öryggis sé gæts. Stillt veður, 9° útihiti og sjórinn um 10°.

FW: Þriðja umferð

Bjössi hitar upp !

Friday, June 24, 2011

Kvöldgalsi kominn í menn

Plankað inn í nætursólina


Sundið gengur mjög vel .  Komnir í aðra umferð en Birna er að skiptir nú við Kristinn.  Kvöldið einstaklega falleg í Nauthólsvíkinni og stemmningin fín í hópnum.

Hægt að fylgjast með skiptingum hér

Listi yfir skiptingar

Hægt er að fygljast með skiptingu hér

2140 Asgeir skiptir við Bjössa



Árni mættur og syndir með Asgeiri

20:40 Birna skiptir við Kristinn


Guðni Guðnason sjósundgarpur úr Hafnarfirðinum syndir með Birnu til að sína stuðning sinn við verkefnið

Árni og Heimir tóku fyrsta sprett

Árni og Heimir byrjuðu sólarhringsundið kl 19:10. Þeir syntu í 30 mín. Hálfdán tók við og nú er Kristinn að byrja. Hver sundmaður syndir í 30 mín.

Sólarhringsundið hefst kl 1900

Monday, June 20, 2011

Securitas Jónsmessu sólarhringssjósund



Þann 24. júní, Jónsmessudag ætlar hópur sjósundsgarpa að synda sólarhringssjósund í Nauthólsvíkinni.

Sundið er liður í að kynna og undirbúa 6 manna boðsundsveit og Árna Þór Árnason í að sigra Ermarsundið í byrjun júlí á þessu ári. 

Boðsundsveit ásamt Árna munu byrja á jónsmessudegi 24. júní kl 19:00 og sundið mun standa yfir til kl 19:00, þann 25. júní. Hver sundmaður í sveitinni syndir yfir til Kópavogs og aftur til baka í Nauthólsvíkina eða meðfram ströndinni. Til að standast kröfur fyrir Ermarsund þarf Árni að synda í 6 klst í sjó. Stefnt er á að Árni æfi fæðuinntöku úr bát ásamt öðrum tækniatriðum sem þarf að æfa fyrir Ermarsundið.

Fyllsta öryggis verður gætt en björgunasveit Kópavogs munu skiptast á að fylgja sjósundsgörpunum allan sólarhringinn.

Hægt verður að sýna sundmönnunum stuðning með því að synda með þeim eða hvetja þá áfram í fjöruborðinu.

Yfir daginn, 25 júní er stefnt á að bjóða upp ýmsa skemmtilega viðburði. Meðal annars getur fólk kynnt sér undirbúninginn og þann búnað sem þarf til að sigra Ermarsundið. Benedikt Hjartarson sem var fyrstur Íslendinga til að sigra Ermarsundið verður á staðnum til að fræða fólk um Ermarsundið og undirbúning þess.


Mætið eða fylgist hér með á ermarsund.com og Facebooksíðu og látið ekki þennan einstaka atburð framhjá ykkur fara.